2.10.2010 | 16:18
Skotta
Jæja, kannski ég prófi aftur að blogga, þó ekki nema væri til að þjálfa mig í að skrifa. Ég held að ef það er til eitthvað sem heitir skrifblinda þá þjáist ég örugglega af henni. Jæja, ég veit svo sem ekki hvað ég ætti að skrifa um, en ætli það verði ekki bara eitt og annað sem mér dettur í hug hverju sinni.
Skák hefur lengi fylgt mér sem eitt helsta áhugamálið. Ég man ekki eftir því hvenær ég byrjaði að tefla en sennilega hefur það verið skömmu eftir heimsmeistaraeinvígið 1972, allavega þá kunni ég ekki að tefla þegar það var, því ég man ekkert eftir því. Einhverja óljósa minningu hef ég samt um að hafa farið með Pabba í bæinn og verið skilinn eftir einhversstaðar á meðan hann fór að fylgjast með einni skákinni. Elsta minningin sem ég hef um skák er heimsókn í Strympu þar sem ég tefldi skák við Halla sem mér hafði verið sagt að væri snillingur í skák og að sjálfsögðu tapaði ég skákinni mjög örugglega.
Fljótlega eftir að ég lærði mannganginn fór ég að mæta á æfingar á Vegamótum sem mig minnir að hafi verið á þriðjudögum og fékk snemma heilmikinn áhuga og fór meðal annars að lesa skákblaðið Skák, sem ég held að Pabbi hafi verið áskrifandi að og þar las ég um helstu skákstjörnurnar, bæði innlendar og erlendar. Einn skákmaður vakti þó fljótlega athygli mína og sá ég nafni hans bregða fyrir í mjög mörgum innlendum skákmótum og greinilegt að þarna var á ferðinni mjög áhugasamur skákmaður en að sama skapi ekki mjög hæfileikaríkur því hann var alltaf neðstur og tapaði öllum sínum skákum. Einnig var nafnið nokkuð sérstakt og hélt ég að þetta væri stelpa enda var nafnið kvenkyns en samt vantaði alltaf eftirnafnið. Hélt ég á tímabili að þetta gæti verið köttur enda nafnið kattarlegt og hæfileikarnir virtust ekki vera meiri en hjá meðalketti en samt fannst mér skrýtið að láta kött taka þátt í skákmóti.
Ég velti því fyrir mér hvað það væri sem fengi þennan aðila til að halda áfram að stunda íþrótt sem hann greinilega gat ekkert í og sennilega var hann sá skákmaður sem mig langaði mest til að hitta og tefla skák við og upplifa það að tefla við lélegasta skákmann í heimi. Ég ímyndaði mér einnig að ekki væri til áhugasamari skákmaður í öllum heiminum, greinilega alveg sama þó hann ynni aldrei nokkurn tímann skák.
Það var svo ekki fyrr en nokkru seinna að ég komst að hinu rétta um þennan skákmann sem gekk undir nafninu Skotta.
Athugasemdir
Gaman að sjá að þú ert að hugsa um að byrja að blogga.
Ég verð dyggur lesandi.
Áslaug Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 6.10.2010 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.