6.4.2011 | 22:09
Icesave
Fyrir mér snýst Icesave ekki um það hvort almenningur eigi að borga skuldir óreiðumanna eða hvort ríkið eigi að bera ábyrgð á einkafyrirtækjum.
Fyrir mér er þetta spurning um siðferði og mér finnst það siðferðilega vafasamt að stjórnvöld taki peninga úr þrotabúi landsbankans til að tryggja innistæður sumra en ekki annara. Í Animal Farm er talað um að sumir séu jafnari en aðrir og finnst mér sú samlíking eiga við hér.
Ég geri mér grein fyrir því að án neyðarlaganna var sú hætta fyrir hendi að allt íslenska bankakerfið hefði hrunið, en það breytir því ekki í mínum huga að það væri siðferðilega rangt að neita alfarið að taka nokkurn þátt í Icesave.
Þessi samningur virðist vera nokkuð góður og gefur okkur færi á því að geta staðið sæmilega upprétt eftir að hann verður samþykktur. Ég ætla því að segja já við Icesave.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2010 | 23:52
Geimverur
Hlustaði á Bylgjuna í morgun þar sem Heimir Karlsson var að tala við Gunnlaug Björnsson stjörnufræðing um heima og geima. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Heimir fær hann í þáttinn til sín þannig að það er greinilegt að hann hefur mikinn áhuga á þessum málum sem er hið besta mál þar sem ég hef alltaf verið áhugasamur um þessi mál líka.
Meðal annars sem þeir töluðu um var nýfundinn pláneta í 20 ljósára fjarlægð sem svipar að mörgu leyti til jarðarinnar og er innan svokallaðs lífssvæðis stjörnunnar, þ.e.a.s. það svæði í kringum stjörnuna þar sem vatn getur verið í fljótandi formi, en flestir vísindamenn telja að það sé grundvallarskilyrði fyrir því að líf geti myndast. En eins og svo oft þegar maður hlustar á áhugaverð viðtöl þá vantaði spurninguna sem mig langaði að fá svar við og það er það hvort það sé mögulegt eða verði mögulegt í náinni framtíð að sjá hvort líf sé á þessari plánetu (og öðrum) án þess að fara þangað. Vísindamenn geta séð úr hverju stjörnur eru gerðar í hundruð og jafnvel þúsund ljósára fjarlægð með því að skoða litrófið sem hún sendir frá sér. Er ekki mögulegt að líf sendi frá sér einhver merki sem hægt er að greina með þar til gerðum sjónaukum? Viti borið líf ætti að vera hægt að greina þar sem líklegt er að það sendi frá sér bylgjur sem geta ferðast á milli stjarna eins og t.d. útvarpsbylgjur. En hvað með venjulegt líf? Sendir það einhverja sönnun um tilveru sína út í geiminn?
Þegar ég var í Fjölbrautaskólanum á Akranesi fyrir löngu síðan þá var áhugaverðasta fagið sem ég tók þar, stjörnufræði. Það var ekkert skriflegt próf í áfanganum, lokaeinkuninn var fundinn með munnlegu prófi og ritgerð. Fór munnlega prófið þannig fram að dreginn var ein spurning og átti maður að halda 10 mínútna fyrirlestur um viðkomandi spurningu og auðvitað dró ég þá spurningu sem ég vildi síst fá, þ.e.a.s. að útskýra efnislegt ástand alheimsins fyrstu 300 milljón árin eða eitthvað í þá áttina.
Ritgerðin sem ég skrifaði hét einfaldlega "Líf í alheimi" og fjallaði um líf í okkar vetrarbraut. Reiknaði ég út fjölda tæknivæddra samfélaga í okkar vetrarbraut með því að nota hina frægu samfélagsjöfnu sem lítur svona út:
Man ekki hver niðurstaðan var hjá mér en minnir að ég hafi fengið út 2-3 þúsund vitiborin samfélög í okkar vetrarbraut. Því miður held ég að þessi ritgerð sé glötuð sem er miður þar sem ég held að hún hafi bara verið nokkuð góð hjá mér.
Er ekki jafn bjartsýnn í dag á fjölda tæknivæddra samfélaga í okkar vetrarbraut og jafnvel að við séum einstakt tilfelli sem þekkist hvergi annars staðar, jafnvel í öllum alheiminum. Hvar eru annars allar geimverurnar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.10.2010 | 16:18
Skotta
Jæja, kannski ég prófi aftur að blogga, þó ekki nema væri til að þjálfa mig í að skrifa. Ég held að ef það er til eitthvað sem heitir skrifblinda þá þjáist ég örugglega af henni. Jæja, ég veit svo sem ekki hvað ég ætti að skrifa um, en ætli það verði ekki bara eitt og annað sem mér dettur í hug hverju sinni.
Skák hefur lengi fylgt mér sem eitt helsta áhugamálið. Ég man ekki eftir því hvenær ég byrjaði að tefla en sennilega hefur það verið skömmu eftir heimsmeistaraeinvígið 1972, allavega þá kunni ég ekki að tefla þegar það var, því ég man ekkert eftir því. Einhverja óljósa minningu hef ég samt um að hafa farið með Pabba í bæinn og verið skilinn eftir einhversstaðar á meðan hann fór að fylgjast með einni skákinni. Elsta minningin sem ég hef um skák er heimsókn í Strympu þar sem ég tefldi skák við Halla sem mér hafði verið sagt að væri snillingur í skák og að sjálfsögðu tapaði ég skákinni mjög örugglega.
Fljótlega eftir að ég lærði mannganginn fór ég að mæta á æfingar á Vegamótum sem mig minnir að hafi verið á þriðjudögum og fékk snemma heilmikinn áhuga og fór meðal annars að lesa skákblaðið Skák, sem ég held að Pabbi hafi verið áskrifandi að og þar las ég um helstu skákstjörnurnar, bæði innlendar og erlendar. Einn skákmaður vakti þó fljótlega athygli mína og sá ég nafni hans bregða fyrir í mjög mörgum innlendum skákmótum og greinilegt að þarna var á ferðinni mjög áhugasamur skákmaður en að sama skapi ekki mjög hæfileikaríkur því hann var alltaf neðstur og tapaði öllum sínum skákum. Einnig var nafnið nokkuð sérstakt og hélt ég að þetta væri stelpa enda var nafnið kvenkyns en samt vantaði alltaf eftirnafnið. Hélt ég á tímabili að þetta gæti verið köttur enda nafnið kattarlegt og hæfileikarnir virtust ekki vera meiri en hjá meðalketti en samt fannst mér skrýtið að láta kött taka þátt í skákmóti.
Ég velti því fyrir mér hvað það væri sem fengi þennan aðila til að halda áfram að stunda íþrótt sem hann greinilega gat ekkert í og sennilega var hann sá skákmaður sem mig langaði mest til að hitta og tefla skák við og upplifa það að tefla við lélegasta skákmann í heimi. Ég ímyndaði mér einnig að ekki væri til áhugasamari skákmaður í öllum heiminum, greinilega alveg sama þó hann ynni aldrei nokkurn tímann skák.
Það var svo ekki fyrr en nokkru seinna að ég komst að hinu rétta um þennan skákmann sem gekk undir nafninu Skotta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)