Geimverur

Hlustaði á Bylgjuna í morgun þar sem Heimir Karlsson var að tala við Gunnlaug Björnsson stjörnufræðing um heima og geima. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Heimir fær hann í þáttinn til sín þannig að það er greinilegt að hann hefur mikinn áhuga á þessum málum sem er hið besta mál þar sem ég hef alltaf verið áhugasamur um þessi mál líka.

Meðal annars sem þeir töluðu um var nýfundinn pláneta í 20 ljósára fjarlægð sem svipar að mörgu leyti til jarðarinnar og er innan svokallaðs lífssvæðis stjörnunnar, þ.e.a.s. það svæði í kringum stjörnuna þar sem vatn getur verið í fljótandi formi, en flestir vísindamenn telja að það sé grundvallarskilyrði fyrir því að líf geti myndast. En eins og svo oft þegar maður hlustar á áhugaverð viðtöl þá vantaði spurninguna sem mig langaði að fá svar við og það er það hvort það sé mögulegt eða verði mögulegt í náinni framtíð að sjá hvort líf sé á þessari plánetu (og öðrum) án þess að fara þangað. Vísindamenn geta séð úr hverju stjörnur eru gerðar í hundruð og jafnvel þúsund ljósára fjarlægð með því að skoða litrófið sem hún sendir frá sér. Er ekki mögulegt að líf sendi frá sér einhver merki sem hægt er að greina með þar til gerðum sjónaukum? Viti borið líf ætti að vera hægt að greina þar sem líklegt er að það sendi frá sér bylgjur sem geta ferðast á milli stjarna eins og t.d. útvarpsbylgjur. En hvað með venjulegt líf? Sendir það einhverja sönnun um tilveru sína út í geiminn? 

Þegar ég var í Fjölbrautaskólanum á Akranesi fyrir löngu síðan þá var áhugaverðasta fagið sem ég tók þar, stjörnufræði. Það var ekkert skriflegt próf í áfanganum, lokaeinkuninn var fundinn með munnlegu prófi og ritgerð. Fór munnlega prófið þannig fram að dreginn var ein spurning og átti maður að halda 10 mínútna fyrirlestur um viðkomandi spurningu og auðvitað dró ég þá spurningu sem ég vildi síst fá, þ.e.a.s. að útskýra efnislegt ástand alheimsins fyrstu 300 milljón árin eða eitthvað í þá áttina.

Ritgerðin sem ég skrifaði hét einfaldlega "Líf í alheimi" og fjallaði um líf í okkar vetrarbraut. Reiknaði ég út fjölda tæknivæddra samfélaga í okkar vetrarbraut með því að nota hina frægu samfélagsjöfnu sem lítur svona út:

N = R^{\ast} \times f_p \times n_e \times f_{\ell} \times f_i \times f_c \times L \!

Man ekki hver niðurstaðan var hjá mér en minnir að ég hafi fengið út 2-3 þúsund vitiborin samfélög í okkar vetrarbraut. Því miður held ég að þessi ritgerð sé glötuð sem er miður þar sem ég held að hún hafi bara verið nokkuð góð hjá mér.

Er ekki jafn bjartsýnn í dag á fjölda tæknivæddra samfélaga í okkar vetrarbraut og jafnvel að við séum einstakt tilfelli sem þekkist hvergi annars staðar, jafnvel í öllum alheiminum. Hvar eru annars allar geimverurnar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Man vel eftir þessari ritgerð. Hún var ágæt. Fullmikið var í jöfnunni af ágiskunartölum og hugsanlegt er að þær væru allt öðru vísi í dag. 

Sæmundur Bjarnason, 7.10.2010 kl. 00:19

2 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

- þú getur byrjað á að skoða þetta : http://www.youtube.com/watch?v=ihH0L_bffAA

Vilborg Eggertsdóttir, 7.10.2010 kl. 00:33

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ef tæknivædd samfélög komast á fót (sem hlýtur eiginlega að vera) þá fer fjöldi þeirra á hverjum tíma væntanlega mest eftir því hve lengi þau lifa. Sá árafjöldi hlýtur að vera ágiskun eða vera byggður á trú viðkomandi á mannkyninu og lífslíkum þess.

Sæmundur Bjarnason, 8.10.2010 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband